Sitges

Einn líflegasti strandbær Spánar liggur 35 km sunnan við Barcelona, Sitges. Í 130 ár hefur Sitges verið uppáhaldsstaður sólþyrsta gesta sem vilja hafa líf og fjör í kringum sig. Ekki að ósekju að Sitges sé kallaður “Ibiza fasta landsins” enda má segja, að yfir sumarmánuðina, sé staðurinn eitt stórt partí. Sitges þykir þó meiri klassastaður en ástareyjan og togar til sín fjölbreyttari flóru gesta.  Sitges er helsti segullinn á Gullnu ströndinni Costa Dorada. 

Sitges er ekki síður menningarbær, með fjölda gallería, spennandi listasafna og sérverslana. Hér eru ótrúlega fjölbreyttir veitingastaðir, allt frá skyndibitastöðum upp í einhverja bestu og fínustu matstaði Katalóníu. Barir og skemmtistaðir skipta þar einnig  hundruðum. Sama á við um tískuvöruverslanir sem spanna allt litrófið - frá ferðamannabúðum við ströndina upp í hástískuverslanir í gamla miðbænum.  

Þeir sem dvelja í Sitges komast vel af án bíls því fjarlægðir eru litlar og leigubílar ódýrir. Strandgatan Passeig Maritim liggur meðfram ströndinni með fjölda kaffihúsa og veitingastaða. Gamli bærinn er ekki tiltölulega stór, en þar er þó hin gullfallega gamla kirkja heilags  Bartólómetusar, betur þekkt sem “La Punta”, sem er líklega mest myndaða fyrirbæri í Sitges. Á leiðinni þangað er farið um El Raco de Calma sem er líklega rólegasti staður bæjarins með tónlist götulistamanna og hippalegum útimarkaði.  
Sitges er frábær áfangastaður hvort sem um ræðir stutt helgarhopp eða lengri dvöl í þessum líflega bæ.