Lissabon
Lissabon er stærsta borg og jafnframt höfuðborg Portúgals. Borgin á sér mikla sögu og menningu en er að sama skapi mjög nútímaleg borg. Hún er mjög hæðótt og er byggð á sjö hæðum, sem gerir hana eina af fallegustu borgum Evrópu en borgin er oftar en ekki kölluð San Francisco Evrópu.   
 
 
Lissabon er sönn heimsborg með gríðarlega merkilega sögu og menningu en að sama skapi nútímaleg. Borgarbúar eru vinsamlegir við ferðamenn þó reyndar fjöldi þeirra sem borgina heimsækir yfir háannatímann á sumrin sé of mikið af því góða að margra mati. Margar merkilegar byggingar og styttur eru við hvert fótmál í miðborginni. Gömul og falleg hverfi setja sinn svip á borgina. Má þar á meðal nefna Baixa, Chiado, Alfama, Bairro Alto og Rossio en öll eiga þau heillandi sögu, hvert á sinn hátt. Gaman er að ganga um miðbæinn, þar er mikið um litlar og þröngar götur en fyrir þá sem vilja skoða meira af borginni er hægt að fara með kláfi upp og niður hæstu brekkurnar. Verslun Baixa er aðalverslunarhverfi borgarinnar og þar er hægt að gera góð kaup á munum sem framleiddir eru í Portúgal, s.s. leðurvörum og skóm. Einnig eru þar verslanir sem innihalda merkjavörur. Aðalverslunarmiðstöðin er Colombo, sem er ein sú allra stærsta í Evrópu með yfir 400 verslanir.
 
Áhugaverðir staðir 
Kastali heilags Georgs (Castelo de Sao Jorge) – Þessi fer ekki framhjá neinum sem á leið um miðborgina. Kastalinn og virkisveggir sitja á besta stað hátt yfir miðbænum og gefur að líta frábært útsýni yfir hluta borgarinnar og ánna Tagus. Þó hann standi hátt er skemmtilegast að labba upp að honum í rólegheitum og taka inn útsýnið á meðan. Vænlegast er að fara seinnipartinn yfir hásumarið enda fjöldi ferðamanna þarna mikill snemma dags. 
Belém turninn - Eitt frægasta tákn Lissabon er þessi turn frá sextándu öld en hann var byggður til að minnast landafunda landkönnuðarins Vasco de Gama. Glæsileg bygging og vel skoðunar virði. Turninn var áður fyrr á lítilli eyju í mynni árinnar en er nú að heita í landi. Hann er á lista yfir Heimsminjar Sameinuðu þjóðanna. 
Belém höllin - Þessi fölbleiklitaða höll stendur á lítilli hæð skammt frá Jerónimó klaustrinu en þarna er dvalarstaður forseta Portúgal. Á torginu fyrir framan hana má sjá minnismerki um merka menn og fallegan garð.  
Ba Wine Do Bairro Alto - Þessi huggulegi vínbar er með 200 mismunandi portúgölsk vín í hillunum. Þjónarnir gera sitt besta til að finna gott vín fyrir gesti, en þau eru reidd fram í glösum. Einnig bjóða þeir upp á létta rétti (osta og skinku) til að njóta með eðal vínglasinu. Barinn er afar vinsæll og því mikilvægt að panta borð í tíma.