Varsjá

Varsjá er talin heimsborg og er vinsæl meðal ferðamanna. Varsjá er höfuðborg Póllands og jafnframt stærsta borg landsins.Hún er einnig þekkt sem „Föníxborgin“af því að hún hefur staðist mörg stríð í gegnum söguna. Helst þessara stríða var seinni heimsstyrjöldin þar sem 80 % af byggingum í borginni voru eyðilagðar en borgin var endurbyggð vandlega eftir það. 

 
 

Eftir stríðið kom kommúnistastjórn mörgum byggingarverkefnum í gang til þess að takast á við skort á húsnæði. Stór staðsteypt hús voru byggð ásamt öðrum byggingum sem voru algengar í borgum Austurblokkarinnar, svo sem Menningar- og vísindahöllin. Borgin endurheimti hlutverk sitt sem höfuðborg Póllands og miðstöð pólskrar menningar og stjórnmála. Margar gamlar götur, byggingar og kirkjur voru endurreistar í upprunalegri mynd. Árið 1980 var gamli bærinn svo skráður á heimsminjaskrá UNESCO. Í byrjun seinustu aldar var Varsjá kölluð Austur-París vegna fegurðar hennar og frumleika. Í Varsjá er mikið af marglitum kirkjum, höllum og höfðingjasetrum í næst öllum evrópskum byggingarstílum frá hverju sögutímabili. Mest áberandi eru byggingar í gotneskum stíl, endurreisnarstíl, barokkstíl og nýklassískum stíl og margar þeirra eru innan göngufæri frá miðborginni. Höfuðborg Póllands laðar ekki einungis að þá sem hafa áhuga á arkitektúr og sögu, heldur höfðar hún einnig til unnenda verslunar og lifandi næturlífs. Hér eru bæði stórar verslunarmiðstöðvar, lúxusverslanir og litríkir markaðir. Stærsta verslunarmiðstöð borgarinnar er Arkadia, sem er með yfir 200 verslanir. ATH verslunarmiðstövar og flestar verslanir eru lokaðar á sunnudögum í Varsjá. 

Áhugaverðir staðir 

Muzeum Powstania Warszawskiego - Uppreisnarsafnið – Hér er sögð saga hinnar hörmulegu uppreisnar borgarbúa í stríðslok í ágúst 1944 og er viðburður sem hver einasti Pólverji þekkir. 
Chopin safnið - Fryderyk Chopin þekkja flestir enda eitt af helstu og að margra mati bestu tónskálda sem uppi hafa verið. Hann er líka helsti sonur Varsjár og á þessu safni má sjá allt milli himins og jarðar sem mögulega tengist Chopin á einhvern hátt. 
Gettó minnismerkið - Pomnik Bohaterów Getta Fair fóru verr út úr Seinni heimsstyrjöldinni en Pólverjar og hér er þeirra minnst sem létu lífið af hálfu Þjóðverja í borginni. Minnismerkið sjálft vel úr garði gert og staðsett skammt frá þeim stað sem óvinum Þriðja ríkisins var smalað upp í gripavagna sem héldu svo með fólkið í útrýmingarbúðir. Tilfinningaríkur staður fyrir heimamenn. Staðsett í gyðingahverfinu norðvestur af miðborginni. 
Gestapo dýflissan - Meðan borgin var hertekin í Seinni heimsstyrjöldinni var einn staður sem enginn vildi koma nálægt en það voru höfuðstöðvar þýsku leyniþjónustunnar Gestapo. Þar er í dag menntamálaráðuneytið en dýflissur þær eða pyntingaklefarnir sem notaðir voru við yfirheyrslur á sínum tíma eru þar enn eins og þær voru og þær hægt að skoða.