Eftir stríðið kom kommúnistastjórn mörgum byggingarverkefnum í gang til þess að takast á við skort á húsnæði. Stór staðsteypt hús voru byggð ásamt öðrum byggingum sem voru algengar í borgum Austurblokkarinnar, svo sem Menningar- og vísindahöllin. Borgin endurheimti hlutverk sitt sem höfuðborg Póllands og miðstöð pólskrar menningar og stjórnmála. Margar gamlar götur, byggingar og kirkjur voru endurreistar í upprunalegri mynd. Árið 1980 var gamli bærinn svo skráður á heimsminjaskrá UNESCO. Í byrjun seinustu aldar var Varsjá kölluð Austur-París vegna fegurðar hennar og frumleika. Í Varsjá er mikið af marglitum kirkjum, höllum og höfðingjasetrum í næst öllum evrópskum byggingarstílum frá hverju sögutímabili. Mest áberandi eru byggingar í gotneskum stíl, endurreisnarstíl, barokkstíl og nýklassískum stíl og margar þeirra eru innan göngufæri frá miðborginni. Höfuðborg Póllands laðar ekki einungis að þá sem hafa áhuga á arkitektúr og sögu, heldur höfðar hún einnig til unnenda verslunar og lifandi næturlífs. Hér eru bæði stórar verslunarmiðstöðvar, lúxusverslanir og litríkir markaðir. Stærsta verslunarmiðstöð borgarinnar er Arkadia, sem er með yfir 200 verslanir. ATH verslunarmiðstövar og flestar verslanir eru lokaðar á sunnudögum í Varsjá.
Áhugaverðir staðir