Sýna síu
Reset Filters
Sort By:
Verðbil
Nætur
Star Rating
Einn af vinsælustu ferðamannastöðum Tyrklands er Antalya, sem er einnig kölluð tyrkneska rivíeran. Antalya er frábær blanda af fallegum hvítum ströndum og hefðbundinni tyrkneskri menningu, borgin liggur við samnefndan flóa við suðurströnd Tyrklands og er veðurfarið einstaklega gott allan ársins hring. Tyrkir eru þekktir fyrir einstaka gestrisni, góða þjónustu og ekki síst, góðan mat. Falleg smábátahöfn og skemmtilegar verslanir innfæddra í gamla bænum gefa borginni skemmtilegan brag.
Margir Íslendingar þekkja Lara ströndina en á Lara svæðinu hefur verið mikil uppbygging síðustu ár. Nóg af afþreyingu er á svæðinu og má helst nefna skemmtigarðinn The Land of the Legends í Belek sem er tívolí, vatnagarður og verslunarmiðstöð á einum stað.
Hótelin á þessum svæðum eru sannkallaðar lúxusgistingar með “allt innifalið”, einkaströndum, vatnsrennibrautum, barnaklúbbum og frábærri sólbaðsaðstöðu.
Hvort sem þú ert að fara í ferð með fjölskyldu eða vinum þá er Antalya staðurinn til að vera á.
Hvað er áhugavert að gera/skoða
Heimsókn í miðbæ Antayla
Við mælum með að heimsækja borgina Antalya en hún er staðsett í um 18 km frá Lara svæðinu. Borgin á sér langa sögu og eru rústir Rómverja vel sýnilegar í gamla bænum. Borgin sem fyrst hét Attaleia og var stofnuð árið 150 fyrir Krist af gríska konungsins Attalus II hefur einnig tilheyrt Rómverjum, Byzantine stórveldinu, Seljuc stórveldinu, Ottómönnum í yfir 500 ár, Ítölum eftir fyrri heimstyrjöldina og það var svo 1923 að borgin varð tyrknesk þegar Tyrkland öðlaðist sjálfstæði undir forystu Mustafa Kemal Ataturk, fyrsta forseta Tyrklands. Í skjóli Taurus fjallgarðsins er þessi fallega borg varin norðanvindum og er því einstaklega veðursælt á svæðinu.
Í Antalya er helst ræktaðir sítrusávextir, ólífur, bómull og bananar. Kaleici sem er gamli bærinn, hefur einstakan sjarma, þröng stræti sem liggja að smábátahöfninni og gamlar byggingar setja svip sinn á bæinn. Fyrir ofan smábátahöfnina er svo aðaltorg borgarinnar Cumhuriyet Square, á íslensku lýðveldistorgið, þar sem gamli bærinn mætir nýja bænum en borgin er byggð umhverfis gamla bæinn Kaleici. Leifar frá Ottómönnum, Seljúkum og Bizantinum má víða finna í Kaleici, ásamt grískum arkitektúr frá fornum tíma en 5 grískar rétttrúnaðarkirkjur eru í Kaleici.
Land of the Legends
Það er vel þess virði að gefa sér tíma í að heimsækja Land of the Legends sem er einstakur skemmtigarður þar sem flestir finna eitthvað við sitt hæfi. Garðurinn er bæði vatnagarður og tívolí og hefur upp á ótal margt annað að bjóða eins og 5D bíó, höfrungasýningu, ferð í loftbelg, köfun og allskonar afþreyingu. Á svæðinu er einnig verslunarmiðstöð með flottum tyrkneskum verslunum og veitingastöðum. Skoða nánar hér
Go-kart
Antalya Go-kart er staðsett stutt frá Lara ströndinni. Innanhúss gokart á yfir 4000 fermetra svæði. Frábær skemmtun.
Sandland
Sandland er sandlistaverkasafn undir berum himni á Lara ströndinni. Listaverkin eru stórglæsileg og er heimsókn í safnið stórskemmtileg fyrir alla fjölskylduna.
Antalya Aquarium
Antalya Aquarium er eitt stærsta sædýrasafn í heimi. Það sem einkennir safnið eru stærstu göng heims undir fiskabúri, þau eru 131 metrar á lengd og 3 metrar á breidd. Auk þess að vera sædýrasafn þá er einnig hægt að komast í kynni við villt dýr í Wild Park, upplifa vetrarveröld í Snow World og skella sér í bíó. Nóg að gera á einum stað
Tyrkneskur matur og drykkur
Í Tyrklandi er mjög góður matur og heimamenn sýna mikla gestrisni og taka vel á móti ferðamönnum. Verðlag á mat og drykk er mjög hagstætt. Tyrknesk matargerð er veisla fyrir bragðlaukana. Hér teljum við upp nokkra tyrkneska rétti sem gaman er að prófa á meðan dvöl stendur. Kebab – orðið „kebab“ þýðir grillað kjöt og eru allskonar útgáfur að kebab til. Döner kebab er vinsælasti skyndibitinn í Tyrklandi en kjötið er grillað lóðrétt á teini og skorið niður við pöntun. Vinsælast er að fá kjötið í durum brauði en þá heitir rétturinn Durum Kebab. Á veitingastöðum er hægt að fá margar útgáfur af kebab eins og shish kebab, beyti kebab og Adana kebab, svo eitthvað sé nefnt.
Meze - smáréttir sem er bornir fram fyrir aðalrétt. Vinsælir meze réttir eru hummus, babaghanoush, tzatziki, kibbeh, rússneskt salat, börek og dolma.
Pide – tyrknesk pizza sem er er ekki hringlaga heldur mjó og löng í laginu. Engin sósa er notuð en álegg, ostur og oft er egg ofan á pizzunni.
Baklava – vinsælt tyrkneskt sætabrauð sem bráðnar í munni. Mörgum lögum af „filo“ deigi er raðað saman og á milli eru hnetur og hunang. Sannkallað lostæti.
Turkish delight – „lokum“ ekta tyrkneskt nammi, einskonar hlaup sem hægt er að fá í mörgum bragðtegundum.
Tyrkneskt kaffi – „kahve“, mjög þykkt kaffi sem er borið fram í litlum bolli, ávallt er vatnsglas borið fram með. Tyrkneskt te – „cay“, er sannkallaður þjóðardrykkur og teið drukkið allan daginn og fram á kvöld. Teið er borið fram í litlum fallegum glösum ásamt sykri. Gestrisnir Tyrkir eru duglegur að bera fram te og það ættu allir að þiggja teglas.
Raki – Vinsælasti áfengi drykkurinn í Tyrklandi, sérstaklega meðal karlmanna. Raki er borið fram í mjóu glasi ásamt vatnsflösku en það tíðkast að blanda drykkinn í vatn.
Efes - Vinsælasti bjórinn í Tyrklandi.
Verslun og markaðir
Það er hagsætt að versla í Tyrklandi og svo sannarlega hægt að gera góð kaup.
Tyrkir elska merkjavörur og eru þeir með mikið úrval að “fake”merkjavöru á góðu verði en það má helst finna á mörkuðum/Bazar. Markaði má finna á Lara ströndinni og líka inn í borginni sjálfri. Í gamla bænum í Antalya má finna hefðbundnar tyrkenskar verslanir eins og teppabúð, krydd- og tebúð, keramikbúð og minjagripaverslanir. Það er hefð að prútta á mörkuðum í Tyrklandi og almennt er greitt með reiðufé á þessum stöðum. Það má einnig gera hagstæð kaup á leðri og gulli. Inn í Anatyla borginni eru síðan fjöldi verslanna og verslunarmiðstöðvar t.d þessar hér
Deepo
Hamam – tyrkneskt bað
Það er ekkert betra en að byrja fríið á tyrknesku baði eða „hamam“ en það er eitthvað sem allir ættu að upplifa í Tyrklandi. Hamam á rætur sínar að rekja til tíma Rómverja. Baðið byrjar á slökun í upphituðu marmaraherbergi og þar er hægt að þvo sér og slappa af. Næst er svo komið að því að þrífa dauðar húðfrumur en það er starfsmaður sem gerir það og notar sérstakan hanska til verksins. Því næst er svo froðunudd og sum staðar er boðið upp á olíunudd. Eftir þetta er svo tilvalið að slaka á í slökunarherbergi. Eftir þessa meðferð ætti húðin að vera tilbúin fyrir sólargeisla Tyrklands. Kynnið ykkur möguleika á tyrkensku baði í heilsulind ykkar hótels.